Bændagisting

Nýtt og glæsilegt heilsárshús að Háafelli í Dölum. Húsið er um 100 m2 og er byggt í burstabæjarstíl. Í miðju burstinni sem er um 45 m2 er mjög vel búið eldhús með ísskáp m/frysti, spanhelluborði, bakaraofn, örbylgjuofn , uppþvottavél og svo stofa með góðum svefnsófa fyrir 2. Rúmgóð svefnherbergin eru 2 og hvort um sig með svölum og sér baðherbergi með sturtu. Þriðja baðherbergið er einnig með sturtu og þar er þvottavél.

Mjög fallegt útsýni er yfir Hvammsfjörðinn og sólarlagið einstakt. Fínar gönguleiðir á fjöllin hér við túnfótinn.

Þetta er góður staður til að dvelja á ef fólk vill skoða það sem Dalirnir hafa uppá að bjóða en einnig er stutt í Borgarfjörðinn, út á Snæfellsnes og norður í Húnavatnssýslur og jafnvel á Vestfirði.

Gemlufall

Tvær íbúðir eru í húsinu og mögulegt er að leigja allt húsið eða sem stakar íbúðir.

Rými er fyrir 14 -16 manns.

Íbúð 1 - 6 manns.

Íbúð 2 - 6 manns + svefnsófi fyrir 2

Rúm eru uppábúin og handklæði fyrir gesti. Það fylgir ekki morgunverður en hægt er að panta með dagsfyrirvara morgunmat (8:00 - 9:30), nestispakka og aðrar léttari máltíðir.

AÐSTAÐA

Hótel Laugarhóll er heimilislegt, sveitahótel í gróðursælum dal á Ströndum, miðja vegu milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Boðið er upp á gistingu í eins, tveggja og þriggja manna herbergjum, með eða án sér baðs. Einnig er tekið er á móti hópum, allt að 40 manns í uppbúin rúm. Á Laugarhóli er að finna notalega setustofu með nettengingu, veitingastað, íþróttasal og gallerí, sundlaug og heitan pott. Skammt frá hótelinu er tjaldsvæði með rennandi vatni og salernum. Tjaldsvæðið er opið frá 1. júní til 1. september.

Utan háannatíma hentar staðurinn einstaklega vel til funda-, námskeiða- og ráðstefnuhalds og ekki síður sem æfingabúðir fyrir kóra, leik- og íþróttahópa, björgunarsveitir eða gönguskíðagarpa,

AFÞREYING

Við hótelið stendur Gvendarlaug hins góða, ylvolg sundlaug, með náttúrulegu heitu vatni (32°C) og náttúruleg heit uppspretta (42°C), vinsæll viðkomustaður hjá lúnum ferðalöngum. Í næsta nágrenni eru fjölbreyttar og fallegar gönguleiðir, silungsveiði, hestaleiga, sjóstangveiði og lundaskoðun, ósnert og víða stórbrotin náttúra og ævintýralegar rekafjörur sem eru eitt helsta tákn Strandasýslu.

VEITINGASTAÐUR

Boðið er uppá veitingar í björtum og notalegum borðsal með útsýni yfir sveitina. Þar má gæða sér á bragðgóðum, heimilislegum mat úr héraði í bland við framandi rétti. Á boðstólum er að jafnaði ferskt sjávarfang, heimalagaðar súpur og nýbakað brauð, ásamt grænu salati og kryddjurtum úr garðinum, að ógleymdum girnilegum eftirréttum.

KOTBÝLI KUKLARANS

Strandir hafa löngum verið kenndar við galdra og í Bjarnarfirði bjó Svanur galdramaður á Svanshóli sem getið er í upphafskafla Njálu. Kotbýli kuklarans er annar áfangi Galdrasafnsins á Hólmavík og stendur við hlið Gvendarlaugar. Það sýnir vel þær aðstæður sem almúgafólk á Ströndum bjó við á tímum galdrafársins og fátæklegur aðbúnaðurinn útskýrir ef til vill þörf þess til að sækja sér styrk í kukl.

GVENDARLAUG HINS GÓÐA

Sundlaugin á sér merka sögu en hún var byggð á fimmta áratug síðustu aldar með sameiginlegu átaki bænda úr hreppnum. Nýleg sundskýli eru við laugina og í anddyri þeirra er sýning sem greinir í máli og myndum frá byggingu laugarinnar.

GVENDARLAUG HIN FORNA

Skammt ofan við sundskýlin er Gvendarlaug hin forna, náttúruleg heit uppspretta, blessuð í byrjun 13. aldar af Guðmundi góða fyrrum Hólabiskupi. Hún er talin búa yfir lækningamætti og er nú friðuð og í umsjá Þjóðminjasafns Íslands.

STAÐSETNING

Frá Reykjavík er rúmur þriggja stunda akstur (258 km) að Laugarhóli, gegnum Borgarnes og Búðardal til Hólmavíkur. Þaðan liggur leiðin fyrir botn Steingrímsfjarðar og yfir Bjarnarfjarðarhálsinn. Hótel Laugarhóll er við veg nr. 643.

Sveitahótelið Heydalur er í 130 km fjarlægð frá Ísafirði og 320 km - 340 km fjarlægð frá Reykjavík eftir því hvaða leið er valin. Veitingasalur, sem er í gamalli hlöðu, rúmar 70 - 100 manns og fundaraðstaða er fyrir 10 - 40 manns. Boðið er upp á gistingu fyrir 59 manns í átta tveggja manna og einu þriggja manna herbergi í flokki 3 og átta tveggja manna og tveimur þriggja manna herbergjum í flokki 4 öll með sér baðherbergjum ásamt þremur sumarbústöðum, annars vegar 10 manna og hins vegar 4 - 5 manna. Gott tjaldsvæði sem er opið frá 1. júní fram í októberlok.

Gnægð afþreyingar er í boði. Lítil sundlaug í suðrænu gróðurhúsi, heitur frumlegur pottur og náttúrulaug vígð af Gvendi góða. Kajak og hestaleiga með leiðsögn við allra hæfi, bæði styttri ferðir og dagsferðir. Veiði í vötnum. Á veturna snjóþrúgur og gönguskíði. Falleg gönguleið um dalinn sem eitt sinn hýsti 13 bæi. Friðaður birkiskógur. Fjölbreytt fuglalíf og plöntugróður. Fugla og plöntuspjöld eru til fróðleiks.

Veitingasalurinn er öllum opinn. Boðið er upp á fjölbreyttan matseðil, þar sem áhersla er lögð á mat úr héraði, heimaræktuðu grænmeti og nýveiddan silung úr eigið eldi. Veitingastaðurinn er með vínveitingaleyfi.

Á tjaldsvæðinu er snyrtiaðstaða með heitu vatni, þrjú kvenna og karla klósett og sturtur sitt hvoru megin. Rafmagn fyrir húsbíla og tjaldvagna. Leiksvæði bæði fyrir börn og unglinga. Frábært umhverfi til göngu og leikja í kjarrinu.

Hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla

Gisting: 3 hús, 19 herbergi, 59 rúm

Seljaland er friðsæll bóndabær við enda Hörðudalsvegar eystri 581. Það þarf að panta gistingu og mat með fyrirvara í síma 894 2194 eða niels@seljaland.is.

Við bjóðum upp á gistingu í gamla Seljalandshúsinu. Þar eru 3 svefnherbergi, eldhús, stofa og baðherbergi. Húsið er leigt út í einu lagi.

Það eru tvö stór herbergi í skála með sér baðherbergi, þar er hjónarúm og auka rúm. Það er 25 manna veitingasalur í skála sem er rekin af matreiðslumeistara og með vínveitingaleyfi.

Það er gisting í 3 smáhýsum sem deila með sér baðhúsi. Smáhýsin eru bara í boði á sumrin. Á sumrin erum við með aðstöðu fyrir hópa, svo sem ættarmót. Gott aðgengi fyrir húsbíla, tjaldvagna, fellihýsi og tjöld. Grillaðstaða og aðgengi að hlöðu.

Einnig erum við með til leigu nýtt 113 fermetra hús með heitum potti, Kornmúli. Það eru þrjú svefnherbergi í húsinu. Hver herbergi hefur sér baðherbergi. Það er opið rými sem er eldhús, borðstofa og stofa. Stór og mikill pallur vestan og sunnan við húsið í kringum heita pottinn.

Það er hægt að skoða fleiri myndir á heimasíðu Seljalands www.seljaland.is

Kirkjuból í Bjarnardal er hlýlegt fjölskyldurekið gistiheimili á sveitarbæ í faðmi fagurra fjalla við Önundarfjörð, einn af vestfirsku fjörðunum, aðeins 15 mín. akstur frá höfuðstað Vestfjarða, Ísafirði.

Á Kirkjubóli í Bjarnardal höfum við tekið á móti gestum frá árinu 2004 og leggjum við metnað okkar í að bjóða upp á góða gistingu í fallegu umhverfi. Yfir sumarið skiptumst við á að taka á móti gestum, ásamt góðu aðstoðarfólki. Sumarið 2020 verður Rúna húsfreyja hjá okkur.

Þegar komið er til Vestfjarða eru nær endalausir möguleikar á því að upplifa sífellt eitthvað nýtt. Þegar dvalið er á Kirkjubóli er auðvelt að fara þaðan í dagsferðir um Vestfirði og koma aftur að kvöldi. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem hugurinn er við söguna, náttúruskoðun, gönguferðir eða þá bara að slappa af í notalegu umhverfi. Kirkjuból í Bjarnardal er aðili að Ferðaþjónustu bænda, Hey Iceland og þar með hluti af öflugum samtökum innan ferðaþjónustu á Íslandi.

Boðið er upp á gistingu í herbergjum með baði og án. Morgunverður og eldunaraðstaða er í boði fyrir gesti.

Vinsamlegast hafið samband í tölvupósti eða síma vegna verðlista og bókana.