Fellsströnd

Fellsströnd í Dölum er strandlengjan út með Hvammsfirði sem endar við Klofning. Þar fyrir utan er fjöldi eyja og skerja og eru margar eyjarnar kunnar úr sögunni. Þéttbýlt var áður á Fellsströnd.

Staðafell er fornt höfuðból og kirkjustaður á Fellsströnd. Þar var rekin húsmæðraskóli 1927-1976, meðferðarheimili SÁÁ frá 1980-2018 og þar er félagsheimili Fellsstrendinga. Einn af fyrstu kunnum ábúendum á Staðarfelli var Þórður Gilsson, faðir Hvamms-Sturlu sem Sturlungar eru komnir út frá. Núverandi kirkja á staðnum er úr timbri og var vígð árið 1891.

Við þjóðveginn er minnisvarði um Bjarna Jónsson sem kenndi sig við bæinn Vog. Meðal almennings er hann ef til vill þekktastur fyrir það að hollenskir vindlar voru kenndir við hann og stóð á vindlakassanum Bjarni fá Vogi.

Í Dagverðarnesi næddi Auður Djúpúðga dögurð er hún kom þar við í leitinni að öndvegissúlunum sínum. Á vinstri hönd á leið niður á nesið, er grjóthringur með grjótbungu í miðju. Þetta er friðlýst.

Talið er að kirkja hafi lengi verið í Dagverðarnesi og núverandi kirkja var byggð árið 1934 úr viðum fyrri kirkju og er hún friðuð. Þar er alla jafna messað einu sinni ári. Úti fyrir nesinu liggur Hrappsey þar sem rekin var fyrsta veraldlega prentsmiðja landsins.

GPS punktar
N65° 14' 0.213" W21° 46' 21.880"
Póstnúmer
371
Vegnúmer
590