Flatey á Breiðafirði

Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins en mynni hans er 70 km á breidd. Þar sem fjörðurinn er grynnri og mjórri, eru nær óteljandi eyjar, en talið er að þær séu um 2700-2800 og auk þeirra eru fjöldamörg sker og boðar. Ýmsar þessara eyja voru byggðar fyrrum en langflestar þeirra eru nú í eyði.

Flatey er eina undantekningin en hún er stærst Breiðafjarðareyja og þar eru 6 manns með skráð lögheimili. Flatey er einnig eina Breiðafjarðareyjan sem er í byggð allt árið. Margar eyjanna voru í byggð fyrir ekki svo löngu síðan líkt og Hvallátur, Svefneyjar og Akureyjar en það er af sem áður var. Eyjarnar eiga það allar sameiginlegt að hafa myndast undan afli skriðjökla á ísaldartímanum. Þær eru flatlendar að mestu og jarðlögin svipuð og á Vestfjörðum. Í mörgum eyjanna er mikil gróska og margar tegundir plantna. Stór hluti af hérlendum stofnum fugla eins og lunda, æðarfugls og teistu er á firðinum. Sagt er að fólk sem bjó við Breiðafjörð og á eyjunum hafi sjaldan eða aldrei liðið matarskort. Eyjarnar iða af fuglalífi og flesta fuglana má nytja. Auk þess var gnægð fisks og sjávarspendýra í flóanum, fjörubeit og fleira. Lífríki eða vistkerfi svæðisins er óvenju fjölþætt og stóð af sér harðæri sem komu verr niður annars staðar og ollu þá jafnvel fólksflutningum til Breiðafjarðarsvæðisins.

GPS punktar
N65° 22' 27.395" W22° 55' 5.950"
Póstnúmer
380