Sælingsdalslaug eða Laugar eru bær í Dölum. Þar var löngum skólasetur og aðstaða til íþróttaiðkunar og hafa skólahúsin verið nýtt á ýmsa vegu, meðal annars voru þar skólabúðir um tíma. Að Laugum er 25 metra útilaug, vaðlaug, heitir pottar og gufubað sem opið er öllum.
Á Laugum er Guðrún Ósvífursdóttir, ein af aðalsöguhetjum Laxdælu, fædd og uppalin. Bærinn stendur í grösugum dal, Sælingsdal sem umlukinn er lágum fjöllum frá botni Hvammsfjarðar.
Jarðhiti er á svæðinu og koma heitar uppsprettur undan fjallinu. Þar var borað eftir heitu vatni 1964-1965. Öll hús á staðnum eru hituð upp með heitu vatni.