Surtarbrandsnáma

Í Syðridal, inn af Bolungarvík, er staðsett gömul surtarbrandsnáma. Surtarbrandur var numinn úr námunni á árunum 1917-1921, eða um og fram yfir fyrri heimstyrjöld. Ástæðan fyrir því að hætt var að vinna surtarbrand í námunni er vegna þess hversu ósamkeppnishæfur surtarbrandur er gagnvart brún- eða steinkolum sem tiltölulega auðvelt var að nálgast frá Evrópu eftir stríð. Surtarbrandurinn inniheldur um 60% kolefni en brún og steinkol á milli 70 og 80%. Námurnar í syðridal eru í raun tvær, Gilsnáma og Hanhólsnáma og eru þær eru sitt hvoru megin Gilsár. Gilsnáma, sem oft er talað um sem hina eiginlegu surtarbrandsnámu er rúmlega hundrað metra langur hellir þar sem enn má sjá tæki og tól sem notuð voru við námuvinnsluna. Hanhólsnáman hinsvegar er handan árinnar og stikla þarf yfir ána til þess að komast að henni. Hún er mun styttri eða um 5-10 metra löng og surtarbrandurinn auðséður. Opið inn í Gilsnámuna er mjög þröngt, en um leið og komið er inn er mikil lofthæð og vel hægt að standa uppréttur. Gangan upp að námunni tekur um 20-25 mínútur eftir stikaðri gönguleið og vel þess virði að kíkja á hana.

GPS punktar
N66° 6' 57.065" W23° 16' 19.193"
Póstnúmer
415
Vegnúmer
629