Óshlíð

Óshlíð nefninst hlíðin á milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Hlíðin er snarbrött og var erfið yfirferðar áður en vegur var lagður þar í krigum árið 1950. Um Óshlíð var eini akvegurinn til Bolungarvíkur en í dag hafa Bolungarvíkurgöng leyst veginn af hólmi. Göngin voru opnuð árið 2010 og síðan þá hefur Óshlíðin verið mikið notuð sem útivistarsvæði. Malbikaður vegurinn býður upp á æðislega hjólaleið, sem og hlaupaleið sem fær er allt sumarið. Vegfarendur eru þó beðnir um að sýna aðgát því mikið grjóthrun er úr hlíðinni fyrir ofan og eins hefur vegurinn látið á sjá vegna ágangs sjávar. Óshlíðin er sérstaklega skemmtilegur áfangastaður á björtum sumarkvöldum því sólsetrið sést hvergi betur en frá Óshlíð og Óshólum. Sett hafa verið upp örnefnaskilti við Skarfasker og þar er fullkomið að setjast niður og fá sér kaffisopa.

Taka skal sérstaklega fram að ekki er ætlast til þess að Óshlíðin sé keyrð, en verði akstur fyrir valinu þá eru ökumenn og farþegar í ökutæki þeirra ótryggðir og alfarið á eigin vegum.

GPS punktar
N66° 7' 51.184" W23° 8' 7.891"