Svalvogavegur er 49 kílómetra langur vegkafli sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Leiðin er torfær og erfið yfirferðar á köflum. Á stórum kafla þá þarf að fylgja sjávarhæð því þegar fellur að er vegurinn undir sjávarmáli. Svalvogavegur er með fallegustu leiðum á Íslandi til þess að keyra. Það er ekki hægt að keyra veginn nema vera á fjórhjóladrifnum bíl en best er þó að hjóla leiðina á góðu fjallahjóli þar sem vegurinn getur verið grýttur.
Ef lofthræddir einstaklingar eru í bílnum þá er lagt til að keyrt sé út Arnarfjörð frá Hrafnseyri og sá hringur tekinn að Þingeyri. Þá snýr bíllinn alltaf að fjallshlíðinni ef svo óheppilega vill til að þú mætir bíl. Einnig getur verið skemmtilegt að útbúa hring og keyra þá leiðina um Kvennaskarð og keyra framhjá hæsta fjalli Vestfjarða á leiðinni.