Náttúruperlur

Vestfjarðaleiðin hefur að geyma margar af þekktustu náttúruperlum Íslands, en þar má einnig finna falda fjársjóði sem ekki allir vita af. Á Vestfjarðaleiðinni er hægt að komast í tæri við margar birtingamyndir fallegrar náttúru, þar að finna marga af fegurstu fossum landsins, fuglabjörg, útsýnisstaði, náttúrulaugar og óteljandi heillandi firði og dali. Nýtið endilega tímann til að stoppa, skoða og njóta. 

 

Deilum gleðinni og notum myllumerkin #Vestfjarðaleiðin #TheWestfjordsWay á ferð okkar um Vestfjarðaleiðina

Valagil er staðsett í botni Álftafjarðar. Gilið er mikilfengleg sjón og þar finnast fjölbreytt berglög og stórbrotið landslag. Í botni Álftafjarðar er bílastæði og merkt gönguleið er inn að gilinu. Frá bílastæðinu er 2 km þægileg ganga inn að Valagili. Sumir telja að gilið dragi nafn sitt af fuglinum Fálka sem er stundum kallaður Valur, en þeir verpa gjarnan á svæðinu en aðrir telja að nafnið sé komið frá konu sem hét Vala og týndi lífi í gilinu fyrir hundruðum ára.

Af Klofningi í Dölum er einstaklega fagurt útsýni meðal annars yfir eyjarnar á Breiðafirði og yfir á Snæfellsnes. Uppi á klettinum við þjóðveginn er hringsjá þar sem hægt er að átta sig á nánasta umhverfi.

Klofningur í Dölum, er fremsti hluti fjallgarðs sem nefnist Klofningsfjall og skiptir Breiðafirði í tvo hluta. Fremst á Klofningi mætast Fellsströnd og Skarðsströnd og liggur akvegurinn um skarð, Klofningsskarð. Landeyjarnes liggur þar fyrir
neðan. Á þessu svæði má oft sjá haferni.

Fyrrum var Klofningshreppur sér sveitarfélag, sem varð til árið 1918 við skiptingu Skarðsstrandarhrepps í Klofningshrepp og Skarðshrepp. Árið 1986 var Klofningshreppi síðan skipt á milli nágrannahreppana Skarðs- og Fellsstrandarhrepps.

Látrabjarg er stærsta sjávarbjarg Íslands og eitt af stærstu fuglabjörgum í Evrópu. Bjargið er vestasti tangi Íslands og því er yfirleitt skipt upp í fjóra hluta í daglegu tali, Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Gríðarlegan fjölda fugla af ýmsum tegundum er að finna í bjarginu, þ.á.m álku, langvíu, stuttnefju, lunda og ritu.

Ógnarbratt, 14 km langt bjargið er margbreytilegt og þar eru grónir grasblettir og einnig snarbrattir klettar. Rétt er að fara mjög gætilega þar sem bjargbrúnin er snarbrött og getur verið viðkvæm. Látrabjarg er einn af vinsælustu ferðamannastöðum Vestfjarða og þangað er hægt að keyra.

Framúrskarandi Bolafjall er frábær útsýnisstaður fyrir ofan Bolungarvík og segja má að útsýnispallurinn sé einn helsti viðkomustaður ferðamanna á norðanverðum Vestfjörðum. Frá fjallinu er stórbrotið útsýni að Hornstrandafriðlandinu, Jökulfjörðum, Ísafjarðardjúpi og sumir segja alla leið til Grænlands. Sólsetrið er einnig sérstaklega fallegt frá Bolafjalli. Vegurinn upp á fjallið er eingöngu opinn yfir sumarmánuðina en hann var byggður fyrir Radarstöðina sem staðsett er á fjallinu. Stöðin var byggð af ameríska hernum á áttunda áratugnum en er núna rekin af íslensku Landhelgisgæslunni. Áður en farið er upp á Bolafjall, eða jafnvel eftir, þá mælum við með því að ferðamenn kíki við í Skálavík

Vegurinn upp á fjallið er opnaður þegar aðstæður þykja vera orðnar góðar og lokað þegar snjóa tekur að hausti. Venjulega er vegurinn opinn frá miðjum júní til miðs septembermánaðar.

Breiðafjörður er annar stærsti flói landsins en mynni hans er 70 km á breidd. Þar sem fjörðurinn er grynnri og mjórri, eru nær óteljandi eyjar, en talið er að þær séu um 2700-2800 og auk þeirra eru fjöldamörg sker og boðar. Ýmsar þessara eyja voru byggðar fyrrum en langflestar þeirra eru nú í eyði.

Flatey er eina undantekningin en hún er stærst Breiðafjarðareyja og þar eru 6 manns með skráð lögheimili. Flatey er einnig eina Breiðafjarðareyjan sem er í byggð allt árið. Margar eyjanna voru í byggð fyrir ekki svo löngu síðan líkt og Hvallátur, Svefneyjar og Akureyjar en það er af sem áður var. Eyjarnar eiga það allar sameiginlegt að hafa myndast undan afli skriðjökla á ísaldartímanum. Þær eru flatlendar að mestu og jarðlögin svipuð og á Vestfjörðum. Í mörgum eyjanna er mikil gróska og margar tegundir plantna. Stór hluti af hérlendum stofnum fugla eins og lunda, æðarfugls og teistu er á firðinum. Sagt er að fólk sem bjó við Breiðafjörð og á eyjunum hafi sjaldan eða aldrei liðið matarskort. Eyjarnar iða af fuglalífi og flesta fuglana má nytja. Auk þess var gnægð fisks og sjávarspendýra í flóanum, fjörubeit og fleira. Lífríki eða vistkerfi svæðisins er óvenju fjölþætt og stóð af sér harðæri sem komu verr niður annars staðar og ollu þá jafnvel fólksflutningum til Breiðafjarðarsvæðisins.

Í botni Patreksfjarðar er að finna fallegan foss sem heitir Svuntufoss. Til að komast að honum, er ekið eftir vegi 62 í átt að Patreksfirði. Um 5 mínútum eftir að ekið er fram hjá Kleifakarlinum, er beygt til hægri inn á lítinn malarveg. Þessi vegur er ekki í góðu ástandi, akið því varlega eftir veginum í örfáar mínútur og þá er komið á áfangastað. Gæta skal fyllsta öryggis við fossinn. Engin bílastæði eða innviðir eru við fossinn, því skal passa að ganga vel um svæðið.

Fossfjörður er einn af svokölluðum Suðurfjörðum, sem ganga inn úr Arnarfirði. Suðurfirðirnir eru Bíldudalsvogur, Fossfjörður, Reykjarfjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður. Fossfjörður er þeirra vestastur. í botni Fossfjarðar er bærinn Foss og þar er einnig að finna fallegan foss sem heitir einfaldlega Foss. Í Fossfirði er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem hefur fengið nafnið A-húsið. Húsið er gamalt yfrigefið sem hefur verið vinsælt myndefni ferðalanga fyrir þær sakir að það er afar sérstakt í laginu og stendur á fallegum stað.

Á milli Steingrímsfjarðar og Veiðileysufjarðar liggur Bjarnarfjörður. Bæði er hægt að keyra norður yfir Bassastaðaháls frá Steingrímsfirði og einnig að keyra strandlengjuna frá Drangsnesi og yfir í Bjarnarfjörð.

Bjarnarfjörður býður upp á ýmislegt og má þar helst nefna Gvendarlaug og Kotbýli Kuklarans. Sundlaug er einnig að finna við Hótel Laugarhól. Svæðið er ákaflega fallegt og hentar vel til styttri jafnt sem lengri gönguferða.

Ófáir Strandamenn hafa dregið sig saman í pottunum á Drangsnesi, enda hefur þar löngum verið samkomustaður ungs fólks á öllum aldri. Pottarnir þrír eru fyrir neðan veg nálægt sjónum og eru þeir mjög vel sýnilegir frá þorpinu og veginum. Vinsældir pottanna virðast síst hafa minnkað síðustu misseri þó fyrirtaks sundlaug hafi verið reist í plássinu ekki fyrir svo löngu síðan.

Aðgangseyrir: frjáls framlög.

Dynjandi er mestur fossa á Vestfjörðum. Hann má finna í Dynjandisvogi fyrir botni Arnarfjarðar. Fossinn og umhverfi hans hans var friðlýst sem náttúruvætti árið 1981, enda um einstaka náttúruperlu að ræða.
Dynjandi er í ánni Dynjandi sem rennur ofan af Dynjandisheiði. Hún á upptök sín í nokkrum vötnum á heiðinni sem liggur í jaðri hálendissvæðis Glámu. Glámusvæðið einkennist af jökulruðningum og dældum sem smávötn hafa safnast í.
Dynjandi fellur niður u.þ.b. 100 metra hátt og bungumyndað berg. Fossastiginn hefur orðið til vegna lagskiptingar bergsins í hraunlög og lausari millilög. Fossberarnir eru hraunlögin en millilögin hefur áin grópað undan þeim. Fossarnir í Dynjanda eru sex. Efst er Fjallfoss, þá Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóarfoss.

Rauðasandur er 10 kílómetra löng strandlengja sem einkennist af fallega lituðum rauðum sandi. Liturinn getur verið allt frá því að vera gulur, rauður og allt að því svartur, þetta fer allt eftir birtunni. Sandurinn fær þennan rauða lit líklegast vegna skeljabrota frá Hörpudiskskeljum.

Tilvalið er að koma á Rauðasand á háfjöru og rölta um sandinn og týna sér í víðáttunni og njóta útsýnisins. Rauðisandur býður upp á frábært útsýni að Snæfellsnesi og þar fær jökullinn að njóta sýn í góðu veðri.

Svalvogavegur er 49 kílómetra langur vegkafli sem liggur á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Leiðin er torfær og erfið yfirferðar á köflum. Á stórum kafla þá þarf að fylgja sjávarhæð því þegar fellur að er vegurinn undir sjávarmáli. Svalvogavegur er með fallegustu leiðum á Íslandi til þess að keyra. Það er ekki hægt að keyra veginn nema vera á fjórhjóladrifnum bíl en best er þó að hjóla leiðina á góðu fjallahjóli þar sem vegurinn getur verið grýttur.

Ef lofthræddir einstaklingar eru í bílnum þá er lagt til að keyrt sé út Arnarfjörð frá Hrafnseyri og sá hringur tekinn að Þingeyri. Þá snýr bíllinn alltaf að fjallshlíðinni ef svo óheppilega vill til að þú mætir bíl. Einnig getur verið skemmtilegt að útbúa hring og keyra þá leiðina um Kvennaskarð og keyra framhjá hæsta fjalli Vestfjarða á leiðinni.

Arnarfjörður hefur af mörgum verið talinn einn fallegasti fjörður landsins, það kemur kannski ekki að óvart enda ótrúlegar perlur sem leynast í firðinum. Fjörðurinn er stór og mikill. Inn af honum ganga nokkrir firðir, til austurs ganga úr Arnarfirði Borgarfjörður og Dynjandisvogur og firðirnir sunnar eru gjarnan kallaðir Suðurfirðir en þeir eru fjórir talsins, Fossfjörður, Reykjafjörður, Trostansfjörður og Geirþjófsfjörður sem er nyrstur. Við Arnarfjörð stendur Bíldudalur yst vestanmegin í firðinum. Þekktustu perlur Arnarfjarðar eru án efa Hrafnseyri, fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar, og fossinn Dynjandi. En þetta eru ekki einu staðirnir í Arnarfirði sem vert er að heimsækja, við mælum einnig með Ketildölunum, Listasafni Samúels Jónssonar og ekki gleyma að horfa út á fjörðin í leit að sjóskrímslum.

Krosshólaborg í Dölum er rétt við veginn sem liggur vestur á Fellsströnd. Af borginni er gott útsýni.

Sagt er að landnámskonan Auður djúpúðga, sem nam land í Dölum, hafi farið þangað til bænahalds og var um það leyti mikil átrúnaður á klettaborginni, þar sem talið er að Auður hafi látið reisa krossa, enda kristin. Skammt þar frá eru Auðartóttir.

Kvenfélagskonur í Dölum reistu minnisvarða, steinkross um Auði djúpúðgu árið 1965 og sumarið 2008 var sett upp söguskilti á staðnum. Bílastæði eru við Krosshólaborg og einungis stuttur spölur þaðan upp á borgina sjálfa.

Í Dagverðarnes í Dölum kom Auður djúpúðga í leit að öndvegissúlunum og snæddi þar dögurð og dregur nesið nafn sitt af þeim viðburði.

Á vinstri hönd, á leið niður á nesið, er friðlýstur grjóthringur með grjótbungu í miðju.

Talið er að kirkja hafi lengi verið í Dagverðarnesi. Núverandi kirkja var byggð árið 1934 úr viðum fyrri kirkju og er hún friðuð. Þar hefur alla jafna verið messað einu sinni ári. Úti fyrir nesinu liggur Hrappsey þar sem rekin var fyrsta veraldlega prentsmiðja landsins